Hagkvæmara að atvinnulausir fari í nám en á atvinnuleysisbætur - alvarleg mismunun varðandi úthlutun LÍN til fjölskyldna í námi.

Ég fékk þær gleðifréttir í gær að ég hefði komist inn í MA nám í ferðamálafræði. Ég hafði hugsað mér að nýta mér nú á tímum atvinnuleysis að í stað þess að fara á atvinnuleysisbætur að bæta við mig þekkingu og fara í háskólann. Hvenær á lífsleiðinni mun ég geta fryst íbúðalánin mín, ef ekki núna? Ég hugsaði mér að nota þetta erfiða ástand til að láta gamlan draum rætast að fara í Háskólann.

Ég er eins og margir aðrir búin að vera að bíða með von í hjarta um að einhverjar úrbætur yrðu við endurskoðun á lánareglum LÍN sem útkoma átti að koma úr í júní. Ég batt miklar vonir við núverandi menntamálaráðherra og hafði trú á því að hún mundi vinna vel fyrir námsmenn og koma með jákvæðar breytingar.

Þess vegna voru það gríðarlega vonbrigði að stuttu eftirað bréfið góða kom frá Háskólanum...bárust aðrar fréttir ekki eins skemmtilegar um að nú liggi fyrir að lánskjör stúdenta hjá LÍN verði að öllum líkindum óbreytt á næsta ári og að menntamálaráðuneytið hyggist ekki auka fjárveitingu til Lánasjóðsins.

Samkvæmt upplýsingum sem ég fékk frá LÍN kom meðal annars í ljós að samkvæmt úthlutunarreglum Lín á ég, sem einstæð móðir með eitt barn á framfæri, rétt á 128.000 krónur í framfærslu miðað við að ég sé í fullu námi.

Ég spyr í framhaldi, hvernig í ósköpunum á ég að framfleyta mér og barni mínu miðað við að borga öll þau gjöld sem ég þarf að borga á mánuði með 128.000 krónum á mánuði? Svarið er einfallt, það er ekki hægt hvernig sem litið er á málið. Þetta er mun lægra en ég fengi færi ég einfaldlega á atvinnuleysisbætur.

Stjórnvöld hafa ítrekað hvatt fólk til að fara frekar í Háskólanám en að fara á atvinnuleysisbætur.
Í ástandi sem ríkir í þjóðfélaginu eru mjög margir sem kjósa það frekar að fara í Háskólann heldur en að fara á atvinnuleysisbætur. Maður skildi halda að það væri öllum í hag; námslánin eru bara lán sem fólk þarf að greiða til baka á meðan atvinnuleysisbætur er styrkur frá ríkinu sem ekki fæst greiddur til baka. Fólk er að bæta við þekkingu sína og gera sig að hæfari starfskröftum í stað þess að staðna í andlegri hrörnun á bótum. En þetta gerir að verkum að það er allt öðruvísi fólk að sækjast eftir að fara í Háskólann en áður. Það er ekki ungt fólk sem að hleypir heimdraganum, býr annað hvort hjá foreldrum eða er að leigja í fyrsta skipti og er með engan skuldabagga á bakinu.
Nei nú er komin stór hópur fólks sem er venjulegt fjölskyldufólk sem er með skuldbindingar sem er sá kostnaður sem fylgir því að reka fjölskyldu, afborganir af húsnæði og svo framvegis.

Í samtali mínu við LÍN kom fram að frá fullri framfærslu dragist 10% af áætluðum heildarlaunum mínum á árinu. Þetta er fullkomlega óviðunandi, og við hljótum að þurfa að endurskoða þörfina vegna þessara efnahagshamfara sem að þjóðfélagið okkar er að ganga í gegnum. Enda var þessi tekjutenging á sínum tíma miðuð við allt annan hóp með allt aðrar þarfir.

Ég 45 ára gömul einstæð móðir. Ég er með skerta vinnugetu vegna þess að ég er með 7 ára gamalt barn á mínu framfæri sem hefur verið lungaveikt og af þeim sökum get ég ekki unnið með fullu námi og þarf því alfarið að reiða mig á framfærslu frá LÍN. Ég er, eins og aðrir landsmenn, búin að sigla á milli skers og báru í mestu efnahagshamförum í sögu þjóðarinnar. Ég hef þurft að greiða af tröllvöxnum erlendum lánum, mánuð eftir mánuð á sama tíma sem allur framfærslukostnaður hefur hækkað og er að missa vinnuna. Tekjurnar hafa bara rýrnað um leið og kostnaður hefur aukist. Ég fæ núna útborgað um 200.000 krónur á mánuði. Það er engin afgangur af þeim peningum um mánaðarmótin þótt svo að ég lifi mjög spart. Þau föstu gjöld sem ég er að greiða á mánuði eru hærri en þessi framfærsla þannig að þá væru einfaldlega engir peningar til að kaupa mat fyrir eða lifa. Dæmið gæti aldrei gengið upp.Þessi framfærsla LÍN er undir öllum fátækrarmörkum og það er einfaldlega ekki hægt að ætlast til að nokkur maður geti lifað af svo lágri framfærslu.

Stór hluti þess fólks sem er að sækjast eftir að ganga menntaveginn nú er fólk sem er eldra og með allskonar skuldbindingar á bakinu og börn á sínu framfæri. Því verður að endurskoða allar tölur í tengslum við úthlutun þannig að það dugi fyrir framfærslu okkar á meðan við erum í námi.

Hjá stúdentaráði Háskóla Íslands fékk ég að heyra það að jafnvel hefði komið til tals að hækka grunnframfærsluna en að lækka ekki tekjutenginguna, vegna þess að þá fengju þeir meira sem að engar tekjur hefðu haft. Þarna tel ég vera grundvallarmisskilning á ferðinni varðandi aðstæður umrædds hóps. Þessi tekjutenging er mjög ósanngjörn fyrir umræddan hóp, með allar sínar skuldbindingar, húsnæðislán og börn á framfæri. Úr því að stjórnvöld eru nú að hvetja fólk til að drífa sig frekar menntaveginn heldur en að fara á atvinnuleysisbætur verða námslánin að duga fyrir framfærslu. Í samtali mínu við stúdentaráð kom einnig fram að sjóðir Lín hafi rýrnað mjög í kreppunni.

Ég álít að úr því að verið er að hvetja fólk til að fara frekar menntaveginn og á námslán en á atvinnuleysisbætur hljóti að þurfa að gera ráð fyrir að einhverjir af þeim peningum sem að ráðgerðir eru fyrir atvinnuleysistryggingarsjóð verði settir í LÍN. Þessir tveir sjóðir hljóta að þurfa að vinna á einhvern hátt saman.

það hlýtur að vera hagsmunamál fyrir alla Íslendinga að fjölskyldurnar í landinu lifi þessar hörmungar af. Að fólkið okkar flýji ekki með börnin sín af landi brott. Hvernig sem á það er litið er það kostur fyrir ríkið og fyrir atvinnulaust fólk að fara frekar í nám og á námslán en á atvinnuleysisbætur. Í námi bætir það við þekkingu sína og verður hæfara til starfa í framtíðinni en allir vita að það er mannskemmandi að hafa ekki atvinnu og neyðast til að þyggja bætur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband